Heilaskaði - hinn þögli faraldur


Höfundar:  

Ólöf H. Bjarnadóttir, læknir;

Smári Pálsson, sálfræðingur.


Heilaskaði:

Heilinn er stjórnstöð líkamans og stýrir m.a. hugsun, hegðun og tilfinningum. Þegar þessi starfsemi truflast af einhverjum völdum þá getur viðkomandi setið uppi með varanlegan heilaskaða. Þær þjóðir sem við miðum okkur gjarnan við, s.s. Norðurlöndin, Bretland og Bandaríkin hafa á undanförnum 20 árum gert átak í að greina og sinna fólki með heilaskaða. Þeir hafa nefnt þetta hinn þögla faraldur (silent epidemic) vegna þess að hér er um að ræða dulda fötlun þar sem einkennin eru oftast ekki sýnileg utan á fólki. Í þessum löndum er unnið markvisst að því að upplýsa um einkenni heilaskaða og auka sérhæfð meðferðarúrræði.

Hver eru einkenni?
Einkenni eru mjög mismunandi á milli einstaklinga og fer eftir orsökum skaðans, staðsetningu og hversu víðtækur hann er. Algengustu einkennin eru þau sem áhrif hafa á geðslag viðkomandi, persónuleika og hugræna getu. Dæmi um einkenni eru skert einbeiting, minni, mál og úthald. Truflun á tilfinningum, hegðun og samskiptum eru einnig algeng einkenni. Breyting á persónuleika, skert innsæi, framtaks- og driftleysi eru oft þau einkenni sem hafa hvað mestu áhrif á almennt líf viðkomandi. Önnur möguleg einkenni í kjölfar heilaskaða geta verið höfuðverkur, svimi og einnig líkamleg eins og kraftskerðing, truflun á skyni og samhæfingu vöðva.

Hvað orsakar?
Algengasta ástæða fyrir áverkatengdum heilaskaða hjá börnum og öldruðum eru föll en hjá öðrum eru það umferðarslys og svo ofbeldi. Heilaskaði er ekki bundinn við höfuðkúpubrot heldur getur mikið eða snöggt högg á höfuð valdið blæðingum eða öðrum áverkum á heila og varanlegum heilaskaða. Sjúkdómar geta einnig valdið heilaskaða eins og heilablóðfall, heilabólga eða súrefnisskortur t.d. við hjartastopp eða drukknun.

Hver er meðferðin?
Bráðameðferð vegna skerðingar á heila er veitt á sjúkrahúsi þar sem kappkostað er að lágmarka mögulegan skaða. Hátækni rannsóknartæki eins og myndgreining eru notuð til að athuga möguleika á skemmd í heilavef en hafa ber í huga að þau geta einnig komið eðlilega út hjá einstaklingum með heilaskaða. Þegar líkamlegt ástand er orðið stöðugt getur fólk setið uppi með einkenni sem lýst er hér að framan. Heilaskaði getur gjörbreytt lífi einstaklingsins og truflað verulega fjölskyldulíf og gert að engu ýmis framtíðaráform þeirra. Þá er sérhæfð endurhæfing eina meðferðin sem gagnast. Sú meðferð felst í að skilgreina veikleika og styrkleika viðkomandi. Fræða einstakling, aðstandendur og nánasta umhverfi um einkenni heilaskaða. Síðan þarf að setja markmið þar sem stefnt er að því að viðkomandi sjái um sig sjálfur, sé í virkni við hæfi og hjá ungu fólki er yfirleitt stefnt að námi eða atvinnuþátttöku. Allt þetta til að þátttaka einstaklings í lífinu í heild, þar með talið fjölskyldutengsl, félagslíf eða atvinna séu sem eðlilegust þrátt fyrir þá fötlun sem heilaskaðinn veldur.

Fyrirbyggjandi atriði
Eina virka aðferðin til að koma í veg fyrir heilaskaða af völdum áverka er að fyrirbyggja áverkann. Hér á landi stuðlar gott heilbrigðiskerfi markvisst að því að minnka áhættu á heilaskaða af völdum sjúkdóma. Unnið er ágætt starf í að minnka hættu á föllum eldri borgara og allir þekkja það öfluga starf sem snýr að fækkun alvarlegra bílslysa. Undanfarið hefur einnig farið fram nokkur umræða um ofbeldi og alvarleika þess, en mikilvægt er á einhvern hátt að koma í veg fyrir þetta ofbeldi. Almenningur þarf að gera sér grein fyrir því að ólíkt því sem við sjáum í kvikmyndum og tölvuleikjum þá getur högg eða spark á höfuð haft alvarlegar óafturkræfar afleiðingar með heilaskaða. Nauðsynlegt er að fræðsla um alvarleika höfuðhögga byrji strax í grunnskólum og að regluleg upplýst umræða fari fram í þjóðfélaginu. Ráðleggingar
Ef einkenni eftir höfuðáverka vara lengur en í 3-4 vikur er rétt að leita til læknis. Einnig er rétt að leita hjálpar ef fólki finnst það “öðruvísi” en það á að sér að vera í kjölfar höfuðáverka, eða ef aðstandendum finnst viðkomandi hafa breyttan persónuleika. Stundum eru ástæður einkenna óöryggi eða kvíði eftir slys eða sjúkdóm sem hægt er að meðhöndla en svo getur heilaskaði einnig valdið þessum einkennum.

Lokaorð
Því miður vantar nokkuð upp á að allir einstaklingar með heilaskaða á Íslandi fái samfellda þjónustu. Ástæðan er að miklu leyti almenn vanþekking á einkennum og í kjölfar vangreining. Skortur á fræðslu og innsæi veldur oft því að fólk með heilaskaða leitar ekki viðeigandi aðstoðar. Þar sem um er að ræða dulda fötlun er algengt að einstaklingur með heilaskaða verði fyrir fordómum í umhverfinu sem telur hann latan eða skrýtinn. Einnig getur verið að heilbrigðisstarfsfólki yfirsjáist einkenni heilaskaðans og miði meðferð við líkamleg einkenni í stað rót vandans sem er skerðing í starfsemi heilans. Í umræðunni um heilbrigðismál á Íslandi er mikilvægt að öllum sé sinnt, hvort sem um sjáanlega fötlun sé að ræða eða ekki. Verum því vakandi fyrir því að fólk sem hefur lent í alvarlegum áverkum eða fengið sjúkdóma í heila getur verið með heilaskaða.

Höfundar: Ólöf H. Bjarnadóttir, læknir; Smári Pálsson, sálfræðingur.