Minniháttar höfuðáverkar en alvarlegar afleiðingar

Yfirlæknir á Grensásdeild hefur áhyggjur af þekkingarleysi þegar kemur að höfuðáverkum

Þó ekki séu merki um áverka í fyrstu getur höfuðhögg valdið slæmum afleiðingum þegar frá líður



Vitundarvakningu þarf í samfélaginu um höfuðáverka. Yfirlæknir á Grensásdeild hefur áhyggjur af því hversu lítil þekking virðist vera um hættuna sem fylgir höfuðhöggi, eða ofbeldi gegn höfðinu. Því jafnvel þó að aðeins sé um minniháttar áverka að ræða geta afleiðingarnar verið skelfilegar. Það sýna dæmin, þau eru ófá og leiða má að því líkum að enn fleiri gangi um ógreindir.

Gera má ráð fyrir að á milli sex og níu hundruð á hverja hundrað þúsund verði fyrir höfuðáverka á ári hverju, leiti aðhlynningar á slysadeild eða séu lagðir inn á sjúkrahús. Höfuðáverka þar sem heilahristingur er vægasta birtingarmynd en heilaskaði sú alvarlegasta. Oft eru áverkarnir tiltölulega litlir, kannski augnabliks meðvitundarleysi og engar skemmdir sjást á röntgenmyndum. Eru menn því útskrifaðir fljótlega. „Þá gerist eiginlega ekkert sem að okkur snýr fyrr en löngu síðar. Fólk kemur kannski eftir hálft ár, eitt ár og jafnvel síðar. Þá er allt í fári,“ segir Gísli Einarsson, yfirlæknir í endurhæfingarlækningum á Grensásdeild. „Einkennin geta verið lítil og enginn tekur beinlínis eftir þeim en allt getur verið komið í óefni í skóla, vinnu eða fjölskyldulífinu.“

Tveir menn liggja enn á Landspítalanum vegna höfuðáverka sem þeir hlutu vegna líkamsárása. Gísli segir alvarlega höfuðáverka að sjálfsögðu mikið vandamál en „svo er það þetta dulda vandamál í samfélaginu. Það er fullt af fólki sem sem hefur fengið höfuðáverka, kannski í slysi en einnig eru mörg ofbeldismál, sem greinist ekki. Við höfum ekki greiningartæki sem eru nægilega næm til að greina þá í bráðafasanum. Svo kemur það ekki í greiningu fyrr en of seint. Það þarf ekki mikið höfuðhögg til að vera mjög hættulegt.“

 

Algengara en menn grunar

Þegar ekki er hægt að greina áverka strax er nær ómögulegt að segja til um hvort höfuðhögg hafi alvarlegar afleiðingar til lengri tíma. Slíkar afleiðingar eru hins vegar mun algengari en menn grunar. „Þetta er oft viðkvæmt mál, því um er að ræða andlega getu og fólk leitar sér því ekki hjálpar strax. Oft kemur það eftir langan tíma og þá er mikið að, lífið bara á hvolfi. Þá þarf mikla vinnu til að snúa því við.“

Einkennin eru helst skortur á andlegri getu, minnistruflanir auk þess sem úrvinnsla á áreitum versnar. Persónuleikinn breytist einnig vegna þess að andlegt úthald minnkar og kveikiþráðurinn styttist. „Þetta eru einkenni sem menn kannski skammast sín fyrir. En það eru inni í þessu hjónaskilnaðir og almennur samskiptavandi innan fjölskyldna. Auk þess dæmi um að menn hafi dottið út af vinnumarkaði eftir að hafa, hægt og bítandi, versnað og ekki náð að klára þau verkefni sem þeim eru sett fyrir. Einnig er til fólk sem flosnað hefur upp úr námi, og er það þá skrifað á leti; að viðkomandi nenni ekki að læra. En kannski er það einfaldlega alrangt og viðkomandi að berjast en ekkert gengur, og hann hefur ekkert skipulag á því hvernig á að takast á við þetta.“

Gísli segir fullt af ungu fólki sem misst hefur heilu árin úr skóla, eða vinnuna og illa gengið að fá aðra. „Þetta er voðalega dapurlegt því fólk fer allt í einu að standa sig verr, að mati annarra, og ekki einu sinni grunur leikur á að gamall höfuðáverki liggi þar að baki.“ Nauðsynlegt sé því að efla eftirfylgni með höfuðáverkum og hvetja fólk til að koma til skoðunar eftir þrjá mánuði eða hálft ár.

 

Hægt að ná árangri

Mikilvægast er að fólk sé greint, en það er gert með sérstöku taugasálfræðimati. Þá eru lögð fyrir allmörg próf og getur tekið margar klukkustundir að fara í gegnum þau. Raunar getur það í einhverjum tilvikum tekið svo langan tíma þar sem sjúklingar hafa ekki fulla getu og þreytast því mikið við andlegt álag. Lagðar eru fyrir þrautir og mældur hugarhraði, þ.e. hvernig fólk nýtir gamla þekkingu og hvernig það hleður upp nýrri þekkingu við að leysa vandamál. Þau eru þannig gerð að hægt sé að kortleggja samskiptin milli ýmissa stöðva í heilanum, sjón og heyrn og hvernig þau tengjast úrvinnslu verkefna.

Lítið þýðir að leggja prófin fyrir skömmu eftir höfuðhöggið og margir taugasálfræðingar eru á því að vafasamt sé að gera það innan þriggja mánaða. Þá eru æ fleiri að komast á þá skoðun að skipulegar eigi að ganga til verks og framkvæma slík möt á fleirum sem hlotið hafa höfuðáverka sem metinn hefur verið minniháttar.

Eftir að viðkomandi hefur verið metinn tekur við þjálfun, sem segja má að sé sambærileg líkamsþjálfun. Þá er meðal annars unnið bæði með taugasálfræðingum og iðjuþjálfum. Gísli segir að oftar en ekki sé hægt að vinna með slíka áverka og ná góðum árangri „en það er afleitt að láta þetta eiga sig og gera ekki neitt. Það endar oft mjög illa.“

 

Ofbeldið fer harðnandi

Höfuðáverkarnir koma til af ýmsum ástæðum, t.d. af völdum slysa en einnig ofbeldis. Og það er ofbeldið sem veldur Gísla nokkrum áhyggjum, enda margir sem komið hafa á Grensásdeild eftir slagsmál, s.s. í miðborg Reykjavíkur um helgar. Gísli telur að því miður fari ofbeldið harðnandi og að sama skapi fari virðing fyrir höfðinu minnkandi.

 

Í hverri viku er greint frá því hversu margir urðu fyrir líkamsárás þá og þá helgi. Gísli bendir á að fjölmiðlar fylgist grannt með líðan manna sem hafa verið lagðir inn á gjörgæslu en svo þegar þeir eru útskrifaðir þaðan er jafnan litið svo á að þeir hafi náð heilsu á ný. Þannig er veruleikinn hins vegar ekki og þó svo að menn séu útskrifaðir af sjúkrahúsinu og komnir til vinnu þá virka menn kannski ekki alveg eins og þeir gerðu áður. Hann segir að efla þurfi umræðuna um höfuðáverka, enda þekking lítil á hættunum sem þeim fylgja. Við höfum jú aðeins einn heila og huga þurfi að hugrænni heilsu rétt eins og líkamlegri.

Helmingur orðið fyrir höfuðáverka

• Tíðni höfuðáverka meðal barna og unglinga hér er svipuð og í öðrum löndum

 

Um helmingur þjóðarinnar hefur orðið fyrir höfuðáverka, heilahristingi eða alvarlegri áverkum, ef marka má nýlega rannsókn sem Jónas G. Halldórsson, sérfræðingur í klínískri taugasálfræði, vann.

Jónas fylgdi eftir öllum nítján ára og yngri einstaklingum sem leituðu á slysadeild vegna höfuðáverka á eins árs tímabili, 1992-1993. Um var að ræða 550 einstaklinga, sem gefur góða mynd af því hversu margir það eru í heild sem leita á slysadeild vegna höfuðáverka á ársgrundvelli. Í hópnum voru bæði þeir sem útskrifaðir voru strax eftir skoðun og eins þeir sem lagðir voru inn á sjúkrahús. Sextán árum síðar sendi hann þeim spurningalista til að athuga með afleiðingar áverkanna, og eru niðurstöðurnar hluti af doktorsverkefni hans.

Jónas sendi einnig spurningalista til samanburðarhóps, fólks á sama aldri sem valið var af handahófi úr þjóðskrá.

Niðurstöðurnar úr samanburðarhópnum þykja ansi áhugaverðar en helmingur svarenda sagðist hafa orðið fyrir heilahristingi eða alvarlegri höfuðáverka. „Það sýnir bara hversu alvarlegt heilsufarsspursmál þetta er í þjóðfélaginu,“ segir Jónas og bætir við að sjö prósent þeirra segjast enn glíma við afleiðingar sem há þeim í daglegu lífi, s.s. þrálátan höfuðverk, minnisskort og einbeitingarleysi.

Jónas segir tölurnar hafa komið sér mikið á óvart. „Þegar við vorum að spá í fjölda þeirra í samanburðarhópnum sem hlotið hefðu höfuðáverka hljóðaði spáin upp á milli tíu og tuttugu prósent. En að það væri fimmtíu prósent, það kom okkur ekki til hugar.“

 

Margir glíma við afleiðingar

Í rannsóknarhópnum voru tólf prósent sem sögðust enn glíma við afleiðingar áverkanna sem þeir hlutu 1992-1993. „Og þeir sem verða fyrir vægum höfuðáverka, þ.e. sem taldir eru vægir í byrjun, geta einnig þurft að glíma við afleiðingar. Þannig glímdu 7% þeirra sem sögðust hafa orðið fyrir vægum höfuðáverka enn við afleiðingar, en hins vegar um 30% þeirra sem sögðust hafa fengið alvarlegri höfuðáverka.“

Jónas hefur einnig rannsakað tíðni höfuðáverka hjá íslenskum börnum og ungmennum og hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún sé svipuð og kynnt hefur verið erlendis.

 

FÉLAG FÓLKS MEÐ HEILASKAÐA HELDUR ÚTI VEFSVÆÐI

 

Engin heildstæð stefna á Íslandi

Félag fólks með heilaskaða, aðstandenda þess og áhugafólks um málefnið var stofnað fyrir fjórum árum. Félagið sem nefnist Hugarfar heldur úti vefsvæðinu hugarfar.is. Þar má finna ýmsan fróðleik um heilaskaða, hvernig þekkja má einkennin, reynslusögur og góð ráð til að lifa með heilaskaða.

Þar er meðal annars bent á að engin heildstæð stefna sé til um málefni fólks með heilaskaða á Íslandi, en til að mynda í Danmörku, Bretlandi og Bandaríkjunum séu stefnumótandi leiðbeiningar til að styrkja stöðu fólks með heilaskaða.

Þá segir að vegna þess hve heilinn er margbrotinn sé sérhver heilaskaði ólíkur öðrum. „Heilaskaði er sú fötlun sem fengið hefur litla umfjöllun í samfélaginu og þar af leiðandi vantar einnig mikið upp á skilning almennings og stjórnvalda á málefninu. Fagfólk og stuðningsaðilar þekkja oft ekki einkenni vitrænnar skerðingar og þá tekst ekki að greina orsök vandans. Einstaklingur með heilaskaða leitar sjaldnast sjálfur eftir aðstoð sem er trúlega vegna þess að einkenni eru skert innsæi í eigin vandamál, framtaksleysi og minnisskerðing.“

 

Viðtal - Andri Karl (andri@mbl.is)