Staðreyndir um heilahristing og heilaskaða

 

Um heilaskaða

Högg eða hnykkur á höfuðið getur raskað eðlilegri virkni heilans. Læknar kalla slíka gerð heilaskaða oft „heilahristing“ eða „lokaðan höfuðáverka.“ Læknar geta lýst slíkum meiðslum sem „vægum“ þar sem heilahristingar eru sjaldan lífshættulegir. Engu að síður geta afleiðingar heilahristings verið alvarlegar.

Eftir heilahristing missa sumir meðvitund eða eru „rotaðir“ í stutta stund, en það er ekki algilt – þú getur hlotið heilaskaða án þess að tapa meðvitund. Sumir verða einfaldlega dasaðir eða ringlaðir.

Vegna þess hve heilinn er margbrotinn er sérhver heilaskaði ólíkur öðrum. Sum einkenni geta komið fram samstundis, meðan önnur koma ekki fram fyrr en dögum eða vikum eftir heilahristinginn. Stundum getur skaðinn gert fólki erfitt fyrir að gera sér grein fyrir eða viðurkenna að það á í erfiðleikum.

Erfitt getur verið að greina einkenni heilahristingsins. Í byrjun geta vandamál farið framhjá sjúklingum, aðstandendum og læknum. Fólk getur virst vera heilbrigt jafnvel þó það hagi sér eða líði öðruvísi en áður.

Eins og heilaskaðar eru mismunandi eru meðferðir mismunandi. Flestir með væga skaða ná sér að fullu en það getur tekið tíma. Sum einkenni vara daga, vikur eða lengur.

Almennt er eldra fólk lengur að ná sér. Fólk sem hefur fengið heilahristing áður getur einnig verið lengur að ná sér í þetta skiptið.

Hér verður útskýrt hvað getur gerst eftir heilahristing, hvernig hægt er að vinna að bata og hvert sé hægt að snúa sér til að fá frekari upplýsingar og hjálp þegar hennar er þörf.

Læknishjálp

Fólk með heilahristing þarf að fara til læknis. Flestir sem fá heilahristing fara á slysavarðstofu eða til læknis. Sumir þurfa að verja nótt á spítala fyrir frekari meðferð.

Stundum taka læknar tölvusneiðmynd af heilanum eða gera aðrar rannsóknir til að gera sér betur grein fyrir meiðslunum. Jafnvel þó þessar rannsóknir sýna engan heilaskaða gætirðu samt verið með heilahristing.

Læknirinn þinn mun senda þig heim með mikilvægar leiðbeiningar til að fylgja. Læknirinn mun til dæmis biðja einhvern um að vekja þig upp á fárra klukkustunda fresti fyrstu nóttina og daginn eftir að þú meiddist.

Gættu þess að fylgja nákvæmlega þessum leiðbeiningum. Láttu lækninn vita ef þú ert að taka einhver lyf - hvort sem þau eru lyfseðilsskyld eða ekki – eða ef þú drekkur áfengi eða tekur ólögleg fíkniefni. Læknirinn verður að vita ef þú ert að taka blóðþynningarlyf eða aspirín því þau gætu aukið líkur á fylgikvillum. Læknirinn gefur kannski leyfi til að taka inn einhver ákveðin verkjalyf gegn höfuðverk eða verk í hálsi.

Hættumerki – Fullorðnir

Í sjaldgæfum tilfellum getur heilahristingur valdið því að hættulegur blóðtappi myndast í heilanum og þrýst heilanum upp að höfuðkúpunni. Hafðu strax samband við Neyðarlínuna eftir að þú hefur fengið högg eða hnykk á höfuðið ef þú finnur fyrir einhverjum af eftirfarandi einkennum:

  • Höfuðverkur sem fer versnandi
  • Máttleysi, dofi, eða minnkandi samhæfni
  • Endurtekin uppköst

Fólk sem annast þig ætti að hringja strax í Neyðarlínuna ef:

  • Ekki er hægt að vekja þig
  • Annar augasteinninn er stærri en hinn
  • Færð krampa eða flog
  • Ert þvoglumæltur
  • Verður sífellt ringlaðri, eirðarlausari eða kvíðafyllri

Hættumerki – Börn

Hringdu strax í Neyðarlínuna ef barnið þitt hefur fengið högg eða hnykk á höfuðið og:

  • Það er með eitthvað af hættueinkennunum sem eiga við fullorðna hér á undan
  • Það hættir ekki að gráta
  • Ekki er hægt að hugga það
  • Vill hvorki borða né drekka

Þó það sé eðlilegt að hafa samband við lækni ef barnið þitt kastar upp oftar en einu sinni eða tvisvar, eru uppköst algengari hjá ungum börnum og því ólíklegra að vera merki um hættu heldur en hjá fullorðnum.

EINKENNI HEILASKAÐA

Fólk á öllum aldri

„Mér líður bara ekki eins og ég á að mér að vera.“

Sú gerð heilaskaða sem kallast heilahristingur hefur mörg einkenni. Þessi einkenni eru yfirleitt tímabundin, en geta varað í daga, vikur eða jafnvel lengur. Almennt séð, ef þér líður eins og „eitthvað sé ekki í lagi,“ eða ef þér líður „undarlega,“ þá ættirðu að ræða við lækninn þinn.

Hér eru nokkur einkenni heilahristings:

  • Vægir höfuðverkir sem vara tímunum saman 
  • Erfiðara en venjulega að:

- Muna hluti
- Halda athygli eða einbeita sér
- Skipuleggja daglegar athafnir
- Taka ákvarðanir og leysa vandamál

  • Lengi að hugsa, bregðast við, tala, eða lesa
  • Villast eða verða auðveldlega ringlaður
  • Verkur í hálsi
  • Síþreyta, orkuleysi
  • - Breytt svefnmunstur
  • - Mun lengri svefntími en áður
  • Erfitt með svefn eða svefnleysi
  • Jafnvægisleysi, verið vankaður eða svimað
  • Aukið næmi gagnvart:

- Hljóðum
- Birtu
- Truflunum

  • Sjá óskýrt eða þreytast auðveldlega í augum
  • Skert lyktar- eða bragðskyn
  • Suð í eyrum
  • Breytt kynhvöt
  • Skapsveiflur
  • - Sorg, kvíði, eða áhugaleysi
  • - Verða auðveldlega pirraður eða reiður vegna lítillar eða engrar ástæðu
  • - Skortur á frumkvæði

Ung börn

Þó að börn geti haft sömu einkenni heilaskaða og fullorðnir, er erfiðara fyrir ung börn að láta aðra vita hvernig þeim líður. Hafðu samband við lækni ef þér sýnist barninu þínu vera að versna eða ef þú tekur eftir einhverju af eftirtöldu:

  • Áhugaleysi, þreytist auðveldlega
  • Pirringur, barnið er úrillt
  • Breytingar á matar- eða svefnvenjum
  • Barnið leikur sér öðruvísi
  • Breytingar á frammistöðu og hegðun í skóla
  • Áhugaleysi á uppáhaldsleikfangi
  • Nýir hæfileikar tapast, s.s. að fara á klósettið
  • Jafnvægisleysi, óöryggi við að ganga

Eldra fólk

Eldra fólk með heilaskaða getur verið í aukinni hættu á að fá alvarlega fylgikvilla s.s. blóðtappa í heila. Höfuðverkur sem fer versnandi eða aukinn ruglingur eru merki um þennan fylgikvilla. Ef þessara einkenna verður vart skal fara tafarlaust til læknis.

AÐ NÁ BATA

„Stundum er best að einfaldlega hvíla sig og reyna aftur síðar.“

Hversu fljótt fólk nær sér eftir heilaskaða er breytilegt milli fólks. Jafnvel þó flestir nái góðum bata getur hraði ferlisins ráðist af mörgum þáttum. Þessir þættir snúa að alvarleika heilahristingsins, hvaða hluti heilans skaðaðist, aldur, og hversu heilsuhraustur viðkomandi var fyrir heilahristinginn.

Hvíld er mjög mikilvæg eftir heilahristing því það hjálpar heilanum að ná bata. Þú þarft að vera þolinmóður því bati tekur tíma. Taktu aftur upp daglegar athafnir s.s. vinnu eða skóla, á þínum eigin hraða. Með tímanum geturðu átt von á að líða smám saman betur.

Ef þú áttir við heilsuvanda að stríða fyrir heilahristinginn, gæti það tekið lengri tíma að ná bata eftir heilaskaðann. Kvíði og þunglyndi gætu einnig gert það erfiðara að aðlagast einkennum heilaskaða.

Meðan þú ert að ná bata ættirðu að gæta þess sérstaklega að forðast allt sem gæti orsakað högg eða hnykk á höfuðið. Í sjaldgæfum tilfellum getur annar heilahristingur, áður en fólk hefur náð bata eftir heilaskaða, verið banvænn.

Jafnvel eftir að þú hefur náð þér af heilaskaðanum ættirðu að verja þig gegn því að fá annan heilahristing. Fólk sem hefur ítrekað fengið heilaskaða, s.s. hnefaleikamenn og fótboltamenn, geta átt í alvarlegum vandamálum seinna á lífsleiðinni. Þessi vandamál koma m.a. fram sem erfiðleikar með einbeitingu og minni og stundum með líkamlega samhæfingu.

Ábendingar til að ná bata – Fullorðnir

Hér eru nokkrar ábendingar til að hjálpa þér að ná bata:

  • Náðu nægum svefni um nætur og hvíldu þig yfir daginn.
  • Snúðu aftur til daglegra athafna smám saman, ekki allar í einu.
  • Forðast þú athafnir sem gætu orsakað annan heilaskaða, s.s. íþróttir sem byggja á mikilli snertingu, þangað til læknirinn þinn segir að þú sért orðinn nógu heilsuhraustur til þess.
  • Spurðu lækninn hvenær þú getur ekið bíl, farið að hjóla o.s.frv. þar sem viðbragðsflýtir þinn gæti verið skertur eftir heilaskaða.
  • Talaðu við lækninn um hvenær þú getur snúið aftur til vinnu eða skóla. Spurðu lækninn um leiðir til að hjálpa vinnuveitanda eða kennara að skilja hvað hefur komið fyrir þig.
  • Íhugaðu að tala við vinnuveitanda þinn um að snúa smám saman aftur til vinnu og breyta vinnulagi þangað til þú hefur náð bata.
  • Taktu bara þau lyf sem læknirinn þinn hefur samþykkt.
  • Ekki drekka áfengi fyrr enn læknirinn segir að það sé í lagi heilsu þinnar vegna. Áfengi og sum lyf gætu hægt á bata og aukið hættu á frekari skaða.
  • Ef það er erfiðara en venjulega að muna hluti skaltu skrifa þá niður.
  • Ef þú tapar einbeitingu auðveldlega reyndu þá að gera einn hlut í einu. T.d. ekki reyna að horfa á sjónvarp um leið og þú útbýrð kvöldmat.
  • Ráðfærðu þig við fjölskyldumeðlimi eða nána vini þegar þú tekur mikilvægar ákvarðanir.
  • Ekki vanrækja grundvallarþarfir þínar eins og að borða vel og að fá næga hvíld.

Ábendingar til að ná bata – Börn

Foreldrar og umönnunaraðilar barna sem hafa fengið heilahristing geta hjálpað þeim að ná bata með því að:

  • Gæta þess að barnið fái næga hvíld
  • Gæta þess að barnið forðist athafnir sem gætu orsakað annað högg eða hnykk á höfuðið – s.s. að hjóla, iðka íþróttir, eða að klifra í leiktækjum – þangað til læknirinn segir barnið nógu heilsuhraust til þess.
  • Gefa barninu bara þau lyf sem læknirinn hefur samþykkt.
  • Tala við lækninn um hvenær barnið ætti að snúa aftur í skóla og til annarra athafna og hvernig skuli takast á við erfiðleika sem barnið stendur fyrir.
  • Deila upplýsingum um heilahristing með kennurum, ráðgjöfum, barnfóstrum, þjálfurum, og öðrum sem eru í kringum barnið svo þeir skilji hvað hefur gerst og aðstoða við að koma til móts við þarfir barnsins.

--------------------     HVAR Á AÐ LEITA HJÁLPAR     --------------------

Hjálp fyrir fólk með heilaskaða

„Þetta var í fyrsta skipti á ævi minni sem ég gat ekki stólað á sjálfan mig.“

Sýndu lækninum þínum þennan bækling og ræddu við hann um áhyggjur þínar. Spurðu lækninn þinn hvort þú þurfir sérhæfða meðferð og um framboð á endurhæfingar-úrræðum.

Heilaskaðateymi eru starfandi á Grensásdeild og í Reykjalundi. Einnig eru sjálfstætt starfandi taugasálfræðingar til staðar. Svo er alltaf hægt að hafa samband við okkur hjá Hugarfari með því að senda póst á hugarfar (hjá) hugarfar.is .

Haltu áfram að tala við lækninn þinn, fjölskyldumeðlimi, og ástvini um hvernig þér líður, bæði líkamlega og andlega. Ef þú telur að þér sé ekki að batna, láttu lækninn þinn vita.

Hjálp fyrir aðstandendur

„Eiginmaðurinn minn var alltaf svo rólegur. En eftir heilaskaðann fór hann að fá reiðiköst við minnsta tilefni. Hann gerði sér ekki einu sinni grein fyrir því að hann hafði breyst.“

Þegar einhver nákominn okkur verður fyrir heilaskaða getur verið erfitt að vita hvernig er best að hjálpa. Þeir geta sagst hafa það „fínt“ en þú sérð á því hvernig þeir láta að eitthvað er öðruvísi.

Ef þú tekur eftir einkennum heilaskaða hjá fjölskyldumeðlimi eða vini sem eru að versna eða ekki að skána, talaðu við þá og lækni þeirra um að fá hjálp. Þeir gætu einnig þarfnast hjálpar ef þú svarar JÁ við einhverri af eftirfarandi spurningum:

  • Hefur persónuleiki þeirra breyst?
  • Reiðast þeir að tilefnislausu?
  • Villast þeir eða verða auðveldlega ringlaðir?
  • Eiga þeir erfiðara en venjulega með að taka ákvarðanir?

Úrræði til hjálpar

„Ég hélt ég væri aleinn, en það er ég ekki. Það eru margir sem skilja hvað ég hef gengið í gegnum.“

Það getur verið mjög hjálplegt að tala við fólk sem hefur reynslu af því sem þú ert að ganga í gegnum. Hugarfar getur komið þér í samband við fólk sem getur hjálpað.

Þýðing byggð á upplýsingabækling frá bandaríska heilbrigðisráðuneytinu